Samfestingurinn 2015

16.2.2015

Dagana 13.-14. mars fer SamFestingurinn fram, árleg hátíð Samfés – samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi í Laugardalshöll. Þar munu þátttakendur allstaðar að af landinu koma saman og hafa gaman. Á föstudeginum verða haldnir glæsilegir tónleikar sem standa frá klukkan 18:00-23:00. Fram koma Amabadama, Friðrik Dór, Úlfur Úlfur, Fm Belfast, Basic House Affect, fjórar unglingahljómsveitir og DJ‘ar. Rúta fer frá Setrinu um klukkan 18 en sá tími verður auglýstur nánar síðar. Söngkeppni Samfés fer fram á sama stað á laugardeginum klukkan 13:00-16:00. Miðaverð á hátíðina er 4.200 krónur, innifalið í því er rúta fram og til baka báða dagana, miði á tónleikana og miði á söngkeppnina. Hægt er að kaupa miða bara á söngkeppnina á 1.600 kr.

Meðferð og neysla tóbaks, áfengis og annarra vímuefna ógildir miðann og leitað verður á unglingunum fyrir brottför.

Líkt og í fyrra gilda ákveðnar reglur um klæðnað á Samfés hátíðinni. Mælt er með því að hver og einn klæði sig siðsamlega og af virðingu við sjálfa(n) sig og aðra. Unglingum er almennt treystandi til þess að dæma um hvað sé viðeigandi en foreldrar og starfsfólk er hvatt til að grípa inn í ef svo er ekki. Til að viðburðir Samfés séu sem ánægjulegastir fyrir alla er mælt með:

• Að klæðast sokkabuxum, leggings eða hjólabuxum undir kjól eða pilsi

• Að vera í bol/hlýrabol undir gegnsærri, fleginni eða fráhnepptri flík

• Að velja þægilega sléttbotna skó

Þegar unglingar mæta í Setriðfyrir viðburð munu starfsmenn fara yfir klæðnað hvers og eins. Ef ástæða þykir til verður haft samband við ykkur foreldra/forráðamenn og þið beðin um að útvega viðeigandi klæðnað.

Við leggjum mikla áherslu á það að þeir sem fara frá Setrinu fari aftur til baka með okkur í rútunni. Ef einhver þarf að bregða út frá þeirri reglu þurfum við að fá að vita af slíku frá foreldrum fyrirfram. Við biðjum foreldra að athuga að hugsanlegt er að rútur verði ekki komnar í Hafnarfjörðinn fyrr en um kl. 23:30-00:00. Vinsamlegast samþykkið ofangreint með því að skrifa undir þetta bréf og skila til okkar í síðasta lagi föstudaginn 27. febrúar.

Það er vinsamleg ábending til foreldra og unglinga að æskilegt er að borða og drekka vel áður en haldið er á ballið. Í tengslum við klæðaburð, fjölmenna- og vímuefnalausa skemmtun er svo kjörið tækifæri fyrir foreldra og unglinga til að ræða saman um samskipti kynjanna, sjálfsvirðingu og heilbrigðan lífstíl. Við komum til með að gera það í félagsmiðstöðinni.

Allar nánari upplýsingar má nálgast í hjá starfsfólki Setursins í síma 555-2955.


Tómstundamiðstöðin í Setbergsskóla | Hlíðarberg 2, 220 Hafnarfjörður
Félagsmiðstöðin Setrið |Sími 555 2955| Netfang setrid@hafnarfjordur.is

Frístundaheimilið Krakkaberg |Sími 565 1031| Netfang krakkaberg@hafnarfjordur.is